Snjóflóð 1, janúar 2013

Fréttir

15. mars 2013

Í gær hélt átta manna hópur upp á Langjökul til prófana á skiparadar og hitamyndavél við leit á jökli....

26. janúar 2013

Dagana 25. til 26. janúar var haldið námskeiðið Snjóflóð 1. Verklegar æfingar voru haldnar í Þjófakrók...

2. janúar 2013

Undanfarna fjóra daga hafa meðlimir í Björgunarsveitunum Ok og Brák aðstoðað viðgerðaflokka Landsnets...

20. desember 2012

Opnunartímar sölustaða verða sem hér segir: Bútæknihúsinu HvanneyriÞorsteinsbúð Reykholti 29. ...

25. nóvember 2012

Nú um helgina hélt Björgunarsveitin Brák námskeið í Fjallamennsku 1. Þrír meðlimir úr Ok sóttu námskeiðið...

Eftirfarandi sögu félagsins tók Þorvaldur Jónsson saman í tilefni 40 ára afmælis sveitarinnar árið 2007

Björgunarsveitin Ok, líf hennar og starf í 40 ár.

Formáli.

Þeirri samantekt sem hér fer á eftir, er ætlað að kynna í stuttu máli tilurð og sögu  björgunarsveitarinnar Oks í Borgarfirði.

 

Starfandi stofnfélögum fækkar eins og gefur að skilja en þeir þekkja best til upphafs starfsins. Aðrir hafa gengið til liðs við sveitina hin síðari ár.

Enn eru þó starfandi stofnfélagar sem þekkja söguna frá upphafi og til dagsins í dag.

Fjarri fer því að hvert handtak hafi á þessum árum verið fært til bókar, enda ekki vani þess fólks sem vinnur sín störf í sjalfboðavinnu, að tíunda slíkt.

Hér verður því ekki um tæmandi eða óaðfinnanlega  lýsingu að ræða.

 

Aðdragandi.

Það var síðsumars árið 1966 að menn og konur í  uppsveitum Borgarfjarðar fóru að ræða það í fullri alvöru að stofna björgunarsveit á svæðinu.

Ástæðurnar voru þær, að oftar en áður hafði þurft að svipast um eftir rjúpnaskyttum, enda vinsældir rjúpnaveiða vaxandi á þessum tíma.

Þá höfðu starfandi björgunarsveitir sýnt fram á að með kunnáttu og reynslu, mátti koma í veg fyrir að slæmt ástand versnaði og með tækjabúnaði, þekkingu og hæfni í notkunn hans, mátti bjarga mannslífum.

Síðast en ekki síst var mönnum það ljóst, að válegir atburðir gátu hent okkur  eða okkar nánustu ekki síður en aðra.

 

Upphafið.

Í október, þetta sama ár, ver svo efnt til undirbúnings stofnfundar í Logalandi.

Þetta var gert í samráði við Slysavarnafélag Íslands.

 Á fundinn kom  Hannes Þ Hafstein, þáverandi starfsmaður S.V.F.Í., síðar framkvæmdastjóri og seinast forstjóri þeirra samtaka. Nú látinn.

 

Á þessum fundi voru lögð drög að stofnun björgunarsveitar og kjörin undirbúningsnefnd sem starfa skyldi fram að formlegum stofnfundi.

Ekki fundust heimildir fyrir því hverjir sátu í þessari undirbúningsnefnd en menn telja að það hafi verið þeir sömu og síðan áttu sæti í fyrstu stjórn björgunarsveitarinnar.

 

Stofnfundurinn.

Stofnfundurinn var síðan haldinn í Logalandi þann 18. feb. 1967.

Á þessum fundi var sveitinni gefið nafnið Ok og í framhaldi var henni kjörin stjórn, þannig skipuð:

 

Formaður: Jón Þórisson.        

Varaformaður: Guðmundur Kjerúlf

Þá var, eins og segir í fundargerð, skipaðí nefndir og kusu þær sér foringja.

 

 

1.         Fjallamenn. 

            Foringi:  Jón Blöndal Langholti

            Varaforingi:  Ingvar Ingvarsson Hvítárbakka

 

2.         Sjúkraliðar.

            Foringi: Guðni Sigurjónsson. Lindarbæ

            Varaforingi:  Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum

 

3.         Alhliða hjálparmenn.

            Foringi:  Guðmundur Þorsteinsson, Efri Hrepp

            Varaforingi:  Kalman Stefánsson Kalmanstungu

 

4.         Slökkvilið.

            Foringi:  Haraldur Sigurjónsson Hvanneyri

            Varaforingi:  Guðlaugur Torfason Hvammi Hvítársíðu

 

  Flokksforingjar áttu sjálfkrafa sæti í aðalstjórn.

 

 

Lög félagsins.

Eftir að fyrirliggjandi tillaga að lögum hafði verið lesin upp, rædd á við og dreif, eins og segir í fundagerð og á henni gerðar nokkrar breytingar, var hún borin undir atkvæði svohljóðandi:

 

1. gr.    Félagið heitir Björgunarsveitin Ok.

 

2. gr.    Félagið nær yfir Borgarfjarðarsýslu, norðan Skarðsheiðar og Hvítársíðu.

 

3. gr.    Meðlimir geta þeir orðið sem búsettir eru á félgassvæðinu eða dvelja þar um lengri tíma.

 

4. gr.    Tilgangur sveitarinnar er:

            1. Að stuðla að auknum slysavörnum á félagssvæðinu.

            2. Stuðla að aukinni þekkingu almennings á Hjálp í viðlögum.

            3. Veita aðstoð í neyðartilfellum.

 

5. gr.    Sveitin skiptist í þessar deildir:

            1. Fjallamenn

            2. Sjúkraliðar

            3. Alhliða hjálparmenn

            4. Slökkvilið

 

 

 

6. gr.    Skylt er meðlimum sveitarinnar að afla sér þekkingar og æfingar í:

            1. Hjálp í viðlögum

            2. Meðferð áttavita og korts

            3. Almennu útilífi

            4. Slökkvistörfum.

 

7. gr.    Skylt er meðlimum sveitarinnar að mæta til æfinga, hjálpar eða björgunarstarfa, nema lögleg forföll hamli og hlýða í einu og öllu skipunum foringja, hvort sem um er að ræða æfingu eða unnið er að björgunar og hjálparstörfum.

              Æfingar skulu aldrei vera færri en sex á ári.

 

8. gr.    Aðalfundur skal haldinn í febrúarmánuði ár hvert og skal boða til hans skriflega.  Aðalfundur er lögmætur, ef 3/5 meðlima eru mættir.  Verði aðalfundur ekki löglegur, skal boða til annars aðalfundar innan hálfs mánaðar og er hann lögmætur, án tillits til fundarsóknar.

 

9. gr.    Á aðalfundi er kosin stjórn:  Formaður, sem einnig er foringi björgunarleiðangra, skal kjörinn sameiginlegaaf öllum deildum. Síðan kýs hver deild einn mann í stjórn og er hann um leið foringi sinnar deildar,  Varastjórn skal kosin á sama hátt.

 

10. gr.  Hlýði björgunarsveitarmenn ekki skipunum foringja, eða bregðist þeim skyldum sem um getur í 6. og 7. gr. er heimilt að víkja honum úr sveitinni.

 

11. gr.  Reglum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi.

 

 

Stofnfélagar voru eftirtaldir 

Hér leyfir ritari sérað bæta inn í fundargerð, þáverandi heimilisföngum. Einnig hvort þeir eru burtfluttir eða látnir þegar þetta er ritað.

 

 

Guðmundur Kjerúlf               Litla Hvammi             Látinn

Óttar Geirsson                                   Hvanneyri                   Fluttur

Jónas Kjerúlf                          Breiðagerði                 Fluttur

Sigurður Kristinnsson            Grímsstöðum              Fluttur

Birgir Jónsson                        Sólbirgi                       Fluttur

Ingimundur Jónsson               Litla Hvammi             Fluttur

Jónar Árnason                        Smiðjuholti                 Látinn

Sveinn Þ. Víkingur                 Úlfsstöðum

Kalmann Stefánsson              Kalmanstungu

Guðlaugur Torfason                Hvammi Hvítársíðu    Látinn           

Sveinbjörn Blöndal                Laugarholti    

Reynir Guðmundsson            Nýja Bæ                     Látinn

Stefán Eggertsson                  Steðja                          Fluttur

Guðmundur Þorsteinsson       Skálpastöðum

Sigurbjörn Björnsson             Hrísum                        Látinn

Halldór Þórmundsson            Bæ 2                           Látinn

Ingvar Ingvarsson                  Hvítárbakka                Fluttur

Ólafur Þórmundsson              Bæ 1                           Látinn

Sigurður Magnússon              Bergi                           Fluttur

Jón Þorsteinsson                     Giljahlíð                      Látinn

Björn Jónsson                         Deildartungu              Látinn

Meinhard Berg                       Giljahlíð                      Fluttur

Sturla Jóhannesson                 Sturlu Reykjum           Látinn

Bjarni Arason                         Hvanneyri                   Fluttur

Guðmundur Þorsteinsson       Efri Hrepp                  Fluttur

Guðmundur Þórðarson           Skógum                      Fluttur

Davíð Pétursson                     Grund            

Haraldur Sigurjónsson           Hvanneyri                   Látinn

Ólafur Kristófersson              Kalmanstungu           

Krisleifur Þorsteinsson           Húsafelli                      Látinn

Guðni Sigurjónsson                Lindarbæ                    Fluttur

Hrafn Sturluson                     Sturlu Reykjum          Fluttur

Eggert Waage                        Litla Kroppi                Látinn

Jón Blöndal                            Langholti

Jón Þórisson                           Reykholt                      Látinn

Sveinn Björnsson                   Varmalandi

Margeir Gestsson                   Giljum                         Látinn

Helgi Hannesson                    Gilstreymi                   Fluttur

Sigurjón Ingimarsson             Litla Bergi                  Fluttur

Kristleifur Jóhannesson          Sturlureykjum 2          Látinn

Friðjón Árnason                     Kistufelli                    Látinn

Guðmundur Kristinsson         Grímsstöðum

Sigurður Kristjánsson             Oddsstöðum               Fluttur

Kristján Benediktsson                       Víðigerði                    Fluttur            

Þorsteinn Þorsteinsson           Skálpastöðum

Bjarni Skarphéðinsson           Andakílsvirkjun          Fluttur

Snorri Jóhannesson                Augastöðum              

Þorsteinn Magnússon             Norðtungu                  Látinn

Einar Gíslason                        Lundi                          Fluttur

 

Fjórir þeirra síðastnefndu gengu í sveitina þann 25. febrúar 1968, en teljast stofnfélagar, samkvæmt töluliði 5 í fundargerð frá þeim degi.

 

Þar með var Björgunarsveitin Ok formlega stofnuð og fór nú í hönd tími uppbyggingar bæði hvað varðar þekkingu og hæfni manna og einnig hvað varðar tækjakost.  Ekki spillti að hafa bakhjarli Svd. Hringinn sem æ síðan hefur verið stuðningsaðili félagsins.

Á fyrsta almennum fundi sveitarinnar er samþykkt svohljóðandi tillaga:

 

Fyrir leitir og æfingar greiðir björgunarsveitin 3,50 kr á ekinn km. á vegum en 10 kr. á ekinn  km. á vegleysum.

 

Á þessum sama fundi fengu menn fyrstu kennslustund í slysahjálp.  Skyndihjálparkennarar voru þá ekki á hverju strái, en héraðslæknirinn og Kleppjárnsreykjum Aðalsteinn Pétursson hélt þar erindi um slysahjálp, eins og segir í fundagerð.

 

Ekki var látið staðar numið og næst er rætt um húsbyggingu.  Samþykkt var samhljóða að leggja í byggingu á færanlegri birgðarstöð um 15 til 20 fm. að stærð.

 

Og enn er haldið áfram á sama fundi:

 

Þá var rætt um kaup á snjóketti (vélsleða).  Hafði komið fram ósk um að félagið keypti slíkan grip í félagi við aðra.

Formaður hafði skrifað til S.V.F.Í. og spurst fyrir um álit þess á þessu máli en svar hafði ekki borist ennþá.

 

Þá var og á þessum fundi, lögð fram tillaga að merki sveitarinnar og varð hún samþykkt samhljóða.

 

Fyrsti aðalfundur sveitarinnar var haldinn í Logalandi þann 25. feb. 1968.

 

Þessi fundur einkenndist af nokkrum lagabreytinum sem nauðsynlegt þótti að gera með tilliti til fenginnar reynslu fyrsta starfsárs.

Í skýrslu formanns kemur fram, að nokkuð af tækjum og búnaði hafi fengist, sveitin hafi tekið þátt í leit að flugvél á Snæfellsnesi, staðið slysavakt á Húsafellsshátið, leitaræfingar í Logalandi og í Lundarreykjadal og farið í kynnisferð á Arnavatnsheiði.

 

Á þessum fundi var og ákveðið, að skilja slökkviliðið frá móðurskipinu og skyldi það eftirleiðis starfa sem sjálfstæð stofnun.

Þegar þetta var gert, voru slökkviáhöldin væntanleg til sveitarinnar. Sum þessara tækja voru enn í notkunn fram undir síðustu aldamót.

Félagssvæði sveitarinnar var og stækkað og náði nú einnig yfir Hvítársíðu og Þverárhlíð.  Þetta breyttist síðar, þegar Björgunarsveitin Heiðin var stofnuð.

 

Árið 1968 er einnig ár mótunar og lagabreytinga.  Einn félagi, Jón Þórisson hafði sótt leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp og hafi fysta námskeiðið þar að lútandi verið haldið.

Á þessu ári kom til kasta sveitarinnar við leit að flugvél, ( nánari heimildir ekki fyrir hendi).

Tveir brunar höfðu átt sér stað á svæðinu þar sem slökkviliðið hafði þreytt sínar frumraunir og slysavakt var staðin á Húsafellsmóti.  Ekki hafði borist nein greiðsla fyrir þessa vaktstöðu og því hafði ekki verið hafist handa við fyrirhugaða húsbyggingu sveitarinnar.

Ekki þótti fært að byrja slíkar framkvæmdir nema a.m.k. kr. 50.000 væru til í sjóði til efniskaupa.

 

Nú var farið að hilla undir það að félagar eignuðust áttavita og kallaði það á námskeið í meðferð þeirra tækja.

Á þessum fundi er rætt um nauðsyn þess að afmaka skírt það svæði sem þessi sveit bæri ábyrgð á, er svo mætti segja, en bæði voru og eru starfandi Bjsv Brák í Borgarnesi og Hjálp á Akranesi og engin skír mörk á milli starfssvæða.

Þá var þeirri hugmynd velt upp hvort ekki væri vænlegur kostur að stofna björgunarsveit í Stafholtstungum og Norðurárdal.

 

Árið 1969 virðist hafa verið tiltölulega friðsamt hvað varðar útköll hjá sveitinni.

Þeim mun meiri áhersla hefur verið lögð á skipulagningu og aukna þekkingu manna, svo sem í meðferð korta og áttavita. 

Þá strax fara menn einnig að hafa áhyggjur af endurnýjun mannafla og er skipuð sérstök nefnd til að kynna starfsemina fyrir ungu fólki og reyna að laða það með til starfa.

Sýnt þótti að til að sveitin yrði í stakk búin til að annast gæslu á næsta Húsafellsmóti yrði að leita eftir aðstoð annarra sveita, einkum hvað varðaði sjúkraflutninga.

Þetta sama ár er hafist handa við byggingu færanlegs húss (stjórnstöðvar) og hafði efni verið keypt fyrir  kr.100.000,oo

 

Á fundinum var flutt hvatningarkveðja frá S.V.F.Í. og mönnum þökkuð þrautsegja, dugnaður og viðbragðsflýtir í útköllum það sem af væri.

 

Það má sjá við lestur fundagerðar frá þessum tíma að vandamáli varðandi lausagöngu hrossa á vegum, hefur oft verið velt upp án þess að séð verði að um þau mál hafi verið gerðar nokkrar samþykktir.

 

Árið 1970 er getið um 6 útköll til leitar að fólki,, þar af 3 til leitar að rjúpnaskyttum.  Slysavakt í Húsafelli um verlunarmannahelgina og óánægju manna með samstarf við H.S.S.R. á síðasta móti en skátarnir höfðu verið ráðnir  til að starfa með Bjsv. Ok.  Samþykkt var samhljóða að sveitin taki ekki að sér slysavaktir á sumarhátíðinni Húsafelli framvegis nema að skipulag þeirra mála verði alfarið í höndum Björgunnarsveitarinnar Oks

 

Húsbyggingarmálum miðaði hægt þetta árið en farið er að huga að bifreiðakaupum og kjörin 3ja manna nefnd til að athuga þau mál.

Þess er rétt að geta hér, að bifreiðin SOFFÍA þeirra félaga  Guðna Sigurjónssonar og Guðmundar Kjerúlf, hafði frá upphafi þjónað sveitinni vel og dyggilega og gerði alla tíð meðan þeirrar þrenningar naut við, þ.e. Guðna, Mumma og Soffíu.  Þetta voru á þeim tíma ekki lítil þægindi að geta á leiðinni á leitarsvæðið notað tímann til að skipuleggja aðgerðir.  Fyrir þetta skal þakka af heilum hug.

 

Einhverju sinni ræddu menn það í gamni og alvöru, að vænlegast væri fyrir sveitina að kaupa Soffíu.  Athugull maður kvaðst sjá það í hendi sér að þar eð þeir Guðmundur og Guðni hefðu byggt bílinn upp nánast frá A-Ö og engir nema þeir vissu hvað í honum væri, yrði sveitin að kaupa þá félagana með.  Umræðan varð ekki lengri.

 

Árið 1971, var tiltölulega rólegt.  Ekkert útkall hafði verið á árinu og þvi gefist tími til að vinna að húsbyggingarmálum. Húsið er nú fokhelt.

 

Ekki var þar við látið sitja, heldur gerðist björgunarsveitin eignaraðili að húsi sem Slökkviliðið hóf byggingu á.

Húsið, sem er stálgrindarhús, átti að verða 3 sperrubil og allt í eigu slökkviliðsins, en með tilkomu björgunarveitarinnar inn í dæmið var húsið lengt og varð 5 sperrubil að lengd.

Hvert sperrubil er 3,30 m. að lengd.  Breidd hússins er 7,60 m. og er Bjsv Ok sem fyrr segir eigandi að 2/5 hlutum hússins.

 

Nú stóð Björgunarsveitin sem sagt í tveim húsbyggingum á sama tíma þó rétt nýfædd væri og enn blaut á bak við eyrun.

Til að hafa eitthvað fram að færa í byggingu fasta hússins, samþykktu félagar Oks að inna af hendi tvö dagsverk í byggingunni eða greiða samsvarandi upphæð í peningum.

 

Aftur hafi reynt á samstarf við skáta úr Reykjavík, varðandi Húsafellshátíð þetta ár.  Ekki þótti nógu vel hafa til tekist varðandi ýmsa þætti þess samstarfs.

Það þótti því skjóta nokkuð slöku við þegar skátarnir sendu heimamönnum bréf sem innihélt eina ruslafötu af skömmum á allt og alla. Björgunarsveitina, héraðslækni, mótsstjórn, lögreglu, sveitastjórnir á svæðinu, Hvítá, Húsafellskóg og Eiríksjökul.

 

Þetta bréf þótti svo forkastanlegt að það var og sérstaklega varðveitt enn þann dag í dag.

Voru menn á einu máli um að ekkert væri í sjálfu sér að því að fá svona bréf en enginn vildi hafa átt aðild að því að skrifa slíkt.

 

Það má segja að björgunarsveitin stæði sífellt í nokkurs konar tímamótum hvað varðar þekking og búnað.

Skömmu eftir stofnun hennar koma til talstöðvar ( labb, rabb), merkjabyssur, áttavitar, kort, skyndihjálparbúnaður, varmapokar og súrefnistæki.

 

Það síðastnefnda var gefið til minningar um Benedikt Guðmundsson, en hann fórst af slysförum í Reykholtsdal þann 8. nóv. 1966. Gjöfin var frá afa Benedikts, föðursystkinum og mökum þeirra.

Slík tæki  höfðu fæstir okkar séð áður og kunnátta í meðferð þeirra þar af leiðandi bágborin í fyrstu a.m.k.

Ávallt hefur þó verið hugur í mönnum að læra nýtt og tileinka sér nýjungar á öllum sviðum. er varða leit og björgun, sem og aðra öryggisþætti.

 

Alla tíð hefur sveitin og átt stuðning og velvild að fagna, bæði meðal félagasamtaka og einstaklinga. Þetta sést best á þeim gjöfum sem sveitinni hafa borist í áranna rás.

 

Á árinu 1973 tóku félagar þátt í björgunaraðgerðum í Vestmannaeyjum.  Þessi ferð er án efa og að örðum ólöstuðum, eitt af stærstu verkefnum okkar og var ferðinni eftirminnilegþó ferðasagan verði ekki sögð hér.

 

Þær framkvæmdir sem í farvatninu voru hafa auðsjáanlega kallað á meira fjármagn en það sem í handraðanum hefur verið og í niðurlagi aðalfundargerðar frá árinu 1973 er stjórn Björgunnarsveitarinnar gefin heimild til að taka víxil til þess að jafna skuldir við lánadrottna.

 

Þá má og sjá, að hreppsnefndir á svæðinu hafa verið jákvæðar björgunnarsveitinni hvað varðar fjárstuðning.

Já raunar voru allir jákvæðir og hvetjandi. Gallinn var bara sá að peningar uxu ekki á trjánum í þá daga, frekar en nú, og kannski sem betur fer.  Menn njóta ávaxtanna betur því torfengnari sem þeir eru.

 

Og enn berast fréttir.  Á aðalfundi Oks í Brún þann 17. mars 1977, tilkynnir Kiwanisklúbburinn Jökklar, að klúbbfélagar hyggist hafa forgöngu um fjársöfnun tilkaupa á snjóbíl og sjúkra- og björgunarbifreið til afnota fyrir björgunarsveitirnar Heiðar og Ok. Í hlut Oks átti að koma tveggja drifa sjúkra- og björgunarbifreið.  Mun þessi tilhögun að einhverju leiti hafa verið fyrir áeggjan Aðalsteins heitins Péturssonar þáverandi héraðslæknis á Kleppjárnsreykjum, en þá þurfti að leita í Borgarnes eftir sjúkrabílsþjónustu en vegir voru ekki alltaf greiðfærir.

 

Þessum fréttum er að sjálfsögðu tekið fagnandi enda fannst mönnum nýr kafli að hefjast í sögu öryggismála í uppsveitum Borgarfjarðar.

Bifreiðin var svo afhent björgunarsveitinni til afnota þann 22. okt. 1977 í Brún í Bæjarsveit að viðstöddu fjölmenni.

Var þetta bifreið  að gerðinni International Travelall. Tveggja drifa, búin til sjúkraflutninga.  Átti hún eftir að þjóna íbúum í uppsveitum Borgarfjarðar næstu 10 árin. 

Þá var hún seld vegna þreytu og þess að erfitt var orðið að fá í hana varahluti.

 

Leitaskipulag 

Oft er það svo að félagsstarf gengur mis vel milli ára. Öldurnar rísa og þær hníga, og Björgunarsveitin Ok hefur ekki farið varhluta af þeim öldugangi.

Frá 1977 og fram til ársins 1981 er t.d. ekki haldinn fundur og í fundargerð frá 25. okt 1981 má lesa að fundarhöld hafi legið niðri og fyrir því tilgreindar ýmsar ástæður, einnig að félagsstarf hafi verið í mikilli lægt á þessum árum.

Öllum útköllum hafi þó verið sinnt, bæði hvað varðar skjúkrafluttninga og leitir eða björgunarstörf.

Á þessum fundi var annar fundur ákveðinn 18. feb. 1982 og að þá myndi verða kjörin ný stjórn, en hún hafi verið næstum óbreitt frá upphafi.

 

Fundurinn samþykkir þó fyllstu trausts yfirlýsingu við sitjandi stjórn og fulla fyrirgefningu á fundarleysinu.

 

Þegar hér er komið við sögu er okkur að bætast liðsauki. Nefnilega flugvélar.  Nokkrir félagsmanna höfðu eignast hlut í flugvélum og buðu fram aðstoð við leit. björgun og sjúkraflug.

 Er það skemmst frá að segja að þessar vélar og þeir sem þær hafa mannað hafa sparað mörg sporin og leyst mörg mál sem annast hefðu reynst torleyst.

 

Fundurinn var síðan haldinn 18. feb 1982 og stjórnarskipti fóru fram.

Fundargerð þess fundar er hinsvegar glötuð.

Í stjórn  voru nú kjörnir samkvæmt nú endurskoðuðum lögum:
Formaður:  Þorvaldur Jónsson Reykholt

Gjaldkeri:  Jón Pétursson Geirshlíð

Ritari: Þorvaldur Jónsson Skelja Brekku.

 

Á þessum fundi var einnig minnst 15ára afmælis félagsins.

Fleira þori ég ekki að fara með af þessum fundi, enda hætt við að slíkt yrðu getugátur einar.

 

Eitthvað virðist okkur hafa haldist illa á fundargerðum frá þessum tíma því næsta bókfærða fundargerði er frá árinu 1984.

 

Ég lýsi því eftir glötuðum fundargerðum svo og öðrum rituðum heimildum sem menn kunna að hafa í fórum sínum frá þessum tíma svo betri heildarmynd megi nást.

Ekki væri verra ef menn ættu einhverjar skjalfestar minningar, að fá afrit af slíku.

Á árinu 1983 bættist 27 manna torfærubifreið í tækjakost sveitarinnar og fystu VHF bíl- og handtalstöðvar voru keyptar.  Þær eldri voru orðnar þreyttar og höfðu stundum brugðist þegar verst gegndi.

Til að fjármagna þessi kaup, höfðu félagar staðið vaktir á hestamannamótum hjá Faxa, í Húsafelli um verslunarmannahelgar, selt blóm á konudaginn o.s. frv.

Á þessu tímabili verður vakning í sveitinni og mikil endurnýjun mannafla. Áhuginn virðist og hafa verið í góðu lagi og sést jafn vel og getið um allt að 6 æfingar og námskeið á sama árinu.

Tveir félagar höfðu aflað sér löggiltra sjúkraflutningsréttinda.  Reynt var að leggja gjörfa hönd á sem flest.  þátttaka í endurvarpaprófunum fyrir komandi VHF talstöðvakerfi, skipulagning samæfingarí umdæmi 2 ásamt bjsv. Heiðari svo eitthvað sé nefnt.

 

Á árinu 1985 gengum við til samstafs við Þorvald Pálmason í Runnum um útisamkomuhald á Gerisárbökkum og gaf það okkur talsverðan hagnað.

Það samstarf átti síðan eftir að endurtaka sig með ágætum.

Það má einnig sjá að á því ári hafa hjálparbeiðnir til sveitarinnar verið 21.  Þ.e. leit, björgun og sjúkraflutningar.

Farið var að hyggja að endurnýjun á sjúkra- og björgunarbifreið, og varð sú endurnýjun að veruleika í des. 1986. Lögð voru drög að kaupum á sig og klifurbúnaði, en nokkrir félaganna höfðu áhuga á slíkum tækjum og höfðu sótt námskeið það að lútandi.

Sveitinni hafði nú verið skipt í:

1. Fjallaflokk

2. Vatnaflokk

3. Vélaflokk

4. Flugflokk

5. Sjúkraliða

6. almennan hjálparflokk.

 

Húsbyggingarmálin eru mikið í umræðunni á þessum árum enda plássið lítið og þröngt um allan búnaðinn.

Þá er og getið um ferð  á Arnavatnsheiði í þeim erindum að reyna aftan í sleða við vélsleða og lorantæki sem sveitin hafði aflað sér.

 

Þá er einnig að renna upp fyrir mönnum síðla árs 1986 að félagið er að verða 20 ára á næsta ári og ef á einhvern hátt ætti að minnast þess þyrfti í tíma að hefja undirbúning.

 

Afmælisins var minnst í Logalandi þann 14. mars 1987 og kom þar margt góðra gesta.  Stofnfélagar, jafnt burtfluttir sem búsettir  hér á svæðinu, fjölmenntu svo og starfandi félagar. Einnig fulltrúar félagasamtaka og einstaklingar sem sýnt hafa okkur stuðning og órofa tryggð í gegnum árin.

Bárust sveitinni margar góðar gjafir, bæði tæki og peningagjafir sem nýst hafa vel og ber að þakka af heilum hug. Þessum gjöfum fylgdu hlý orð og árnaðaróskir sveitinni til handa.

Aftur og aftur má lesa að fjárhagur hafi ekki verið sem bestur og ýmsar leiðir ræddar til úrbóta s.s. bingó, hlutavelta, torfærukeppni, blómasala, útisamkomuhald á Geirsárbökkum, vaktastaða í Húsafelli og síðast ek ekki síst dorgveiðivarsla á Arnavatnsheiði.

Í maí mánuði 1987 kom sú hugmynd fram að halda útisamkomu í Húsafelli í samstarfi við  Þorstein Guðmundsson og U.M.S.B. en Stuðmenn eða Sýrland eins og fyrirtækið var nefnt, hafði sýnt áhuga á að hafa í frammi tónlist og gjörninga við slíkt tækifæri.

 

Nú gerist allt hratt en þó kannski ekki nógu hratt.  Tíminn var naumur svo ekki sé meira sagt.

Afla þurfti tilskilinna leyfa og byggja upp samkomusvæðið frá grunni.  Hófst nú ein samfelld brjálæðisvinna við þessi mál og má segja að síðasti naglinn hafi verið negldur þegar fyrstu samkomugestirnir fóru að tínast burt.

Fjárhagslegur ábati varð hinsvegar ágætur af öllu saman og umræðan á næsta aðalfundi einkenndist af hugmyndum um það hvernig ábatanum skyldi varið.

Meðal annars var keyptur notaður sjúkrabíll af Reykjavíkurdeild R.K.Í.  Um þau kaup og almennt um rekstur á sjúkrabíls á vegum björgunnarsveitarinnar voru mjög skiptar skoðanir en samþykkt eftir nokkrar vangaveltu að reyna að halda því áfram enn um sinn.

Vélsleðamenningin heldur innreið sína um þetta leiti og er hún stórstíg.  Þá voru 10 vélsleðar keyptir í nafni sveitarinnar og um þá gerðir vörslusamingar við félaga samkvæmt reglum þar að lútandi.

Þetta atriði átti einnig sína efasemdamenn enda eru skipar skoðanir í jafn fjölmennum samtökum líklegast eðlilegasti hlutur í heimi.

 

Hvað um það.  Vélsleðarnir áttu eftir að sanna notagildi sitt svo að enginn þurfti að efast um gagnsemi þeirrar ráðstöfunnar.

Sú var og raunin með sjúkrabílinn.

Æfingar og námskeið hafa verið fjölmörg á þessum tíma en misjafnlega sótt.

Ekki varð framhald á samkomuhaldi í Húsafelli og varð því að finna nýja tekjustofna. M.a. tóku félagar að sér dyravörslu á sumardansleikjum í Logalandi.

 

 

Engar stórbreytingar verða á næstu mánuðum.

Ákveðið var að selja rútuna og frá þeim kaupum gengið í október 1990. Kynnisferð farin til Hveravalla, snjósleðar endurnýjaðir og nokkur námskeið haldin.

Í ráði var að fá til afnota fjárhús og hlöðu í Reykholti fyrir starfsemina.  Var hugmyndin að endurinnrétta þau.

 

Frá því var þó horfið og ákveðið að stefna frekað að viðbyggingu við núverandi hús sveitarinnar.

Félagstarfið er með ágætum á þessum tíma hvað varðar fundi, námsskeið  og æfingar.  Allt er þetta þó mis vel sótt.

Útköll eru 3-4 á ári við misgóð  endalok eins og gengur.

Æfingar og kynnisferðir eru vinsæll þáttur í félagsstarfinu um þessar mundir.

Hverskyns nýjungar eru í umræðunni og byrjað er að grafa fyrir viðbyggingu við hús sveitarinnar í árslok 1992.

Það verður að segjast eins og er að endurnýjun mannafla sveitarinnar eru skorður settar þar eð flest ungt fólk er að heiman um 9 mánaða skeið og leitar atvinnu þar sem hana er helst að fá og atvinnutækifærum fækkar sífellt hér sem annars staðar í strjálbýli.

Hvergi nærrier saga Björgunnarsveitarinnar Oks frá þessum tíma tæmd í þessum orðum.

 

Þarna skortir stundum á heimildir og eins hef ég kosið að taka ekki til umfjöllunar einstakar leitir eða björgunaraðgerðir enda ekki alltaf gleðileg endalok þeirra.  Alls mun láta nærri að bjsv. hafi sinnt á þessum árum um 400 hjálparbeiðnum við leit, björgun og sjúkraflutninga.

Aðalmál síðustu ára hefur auk daglegs reksturs verið að koma húsinu í not og koma þannig tækjum og búnaði sómasamlega fyrir.

Við fögnuðum nýju húsi á 30 ára afmæli Björgunarsveitar S.V.F.Í. í Reykholti eins og hún hét þá formlega. Þetta var vorið 1997 þó ég hafi í þessum pistli mínum jafnan talað um Björgunarsveitina Ok, vona ég að enginn taki það illa upp.

Í þáverandi stjórn áttu sæti:

Formaður: Björn Björnsson

Gjaldkeri: Kolbeinn Magnússon

Ritari Guðmundur Magnússon

Meðstjórnendur:  Guðni Eðvarðsson og Sigfús Blöndal Sigurðsson

 

Þessara tímamóta var minnst eins og áður sagði með vigslu hússins í Reykholti sem hófst með því að sóknarpresturinn sr. Geir Waage blessaði húsið og lét í ljósi þá ósk að félagar mættu eiga þangað oft erindi en þó aldrei brýn.

Við þetta tækifæri voru öll tæki björgunarsveitarinnar höfð til sýnis, bæði gömul og ný.

Nokkrir burtfluttir félagar heimsóttu okkur og hafði einn stofnfélaginn það á orði að þetta væri orðið stórveldi.Samkomunni lauk síðan með kvöldverðarsamsæti í Logalandi. 

 

Þar voru ávörp flutt,gjafir afhentar, saga bjsv.Oks rakin, þakkað og hlegið, grínast og gantast.

 

 

Þó að þrjátíu ára starfsafmæli væri að baki, var framtíðin  það sem skipti máli og þar gilti að sofna ekki á verðinum.

Á þessum árum má að fundarsókn á aðalfundum sveitainnar hefur verið á bilinu 15-25 manns. Þetta hefur þó ekki aftrað mönnum frá því að hugsa stórt og framkvæma.

Líkt og í öðrum félagsskap, hefur starið oft byggt á tiltölulega fáum einstaklingum, miðað við  heildartölu félagsmanna.Þetta er þó ekki skrifað til að atyrða neinn því að nokkrir eru skráðir styrktarfélagar og aðrir vilja gjarnan vera til taks ef mannaþörf er mikil um stundarsakir, þó þeir telji sig ekki geta helgað sig félagsstarfinu að öðru leyti.

Á þessum tímapunkti er sjúkrabíll sveitarinnar endurnýjaður. Keyptur var VoksWagen transporter 4x4  og gamli Chevrolettinn seldur.

Getið er um að félagar sæki námskeið í rústabjörgun og einnig að starf svæðisstjórna sé í sífelldri mótun og framþróun.

Þá er sú nýbreytni tekin upp að bjóða útskriftarnemendum frá Kleppjárnsreykjasóla á starfskynningu hjá björgunarsveitinni á vordögum og síðan í óvissuferð.

Þetta hefur mælst vel fyrir.

 

Á þessum tíma eru nokkrar sviptingar í aðalstöðvum S.V.F.Í. í Reykjavík.

Þessa titrings gætir þó ekki hér nema að litlu leyti. Þó kemur fram að sumum þykir sjónarsviptir af sumum þeim starfsmönnum sem þar voru látnir taka pokan sinn.

 

Áfram er getið um endurnýjun á tækjakosti sveitarinnar Patrol jeppi er keyptur og eldri björgunarbifreið er seld. Þá eru talstöðvar og GPS búnaðurinn ávallt í skoðun og endurnýjun.

Útköll eru af ýmsum toga. Kindum er bjargað úr fönn, mönnum og bílum úr aurpyttum

nautgripum úr haughúsum auk venjubunari útkalla.

Á þessum árum gengur og til liðs við okkur maður að nafni Kristinn Hannesson sem hefur þjálfað hunda til leitar að týndu fólki. Vegna þessa þáttar í starfinu var keyptur hundabíll af gerðinni Lada Sport. Þessi bifreið hefur nú verið seld og Kristinn er fluttur

 

Til fjáröflunar tók sveitin  að sér gæslustörf á landsmóti U.M.F.Í. sem haldið var í Borgarnesi  árið 1999. þá er nokkrum sinnum getið um gæslu í Húsafelli. Slíkar vaktstöður hafa verið liður í fjáröflun sveitarinnar ásamt dósasöfnun, blómasölu dyravörslu, flugeldasölu, dorgveiðivörslu á Arnarvatnsheiði og fleiru

 

Árið 2002 leggjast sjúkraflutningar Bjsv. Oks niður. Undanfarin ár er eins og þessir flutningar hafi verið þyrnir í augum heilsugæslulækna. Nokkrum sinnum hefur forráðamaður sjúkrabílsins verið kallaður til viðtals á heilsugæslunni til að finna að þessum þætti í starfseminni og reyna að gera hann tortryggilegan.

Gekk þetta svo langt að okkur var hótað ransókn á vegum landlæknisembættisins.

Hvöttu sjúkraflutningamenn Oks eindregið til þessarar ransóknar og víðtækari.

Þá var málinu eytt í skyndi.

 Það skal tekið fram að afleyingslæknar nýttu þennan kost í þó nokkru mæli og höfðu um hann góð orð. Þá er rétt að geta þess hér að bíllinn stóðst alltaf skoðun sjúkraflutningaráðs og allar okkar skýrslur varðandi flutninga bárust með góðum skilum

 

Með hliðsjón af þessum leiðindum var sjúkrabíllinn seldur og farið að huga að kaupum á

annarri bifreið sem nýtast mætti í öðrum störfum okkar.  Eftir vangaveltur og skoðunarferðir var keyptur notaður Ford pallbíll af annarri björgunarsveit.

 

Ekki nóg með það. Þegar þetta er ritað hefur björgunarsveitin Ok fest kaup á tveim snjóbílum af gerðinni Haaglund. Er annar þeirra ætlaður til hefðbundinna björgunarstarfa en hinn til eldsneytis og anarra birgðaflutninga  Þá voru keyptir  tveir vélsleðar sem eru eign sveitarinnar  án vörslusamninga

 

Breytingum á eldra húsnæði sveitarinnar miðar áfram og nú hefur  Ok eignast  þann hluta hússins að fullu sem Slökkvilið Borgarfjarðardala byggði upp úr 1970.

 

Fyrir húsnæðið var greitt með vinnu félagsmanna í nýrri slökkvistöð sem er staðsett í húsnæði þar sem upphaflega var Bifreiðaverkstæði Guðmundar Kjerúlf.

 

Þrátt fyrir þessar fjárfestingar og framkvæmdir undanfarinna ára er fjárhagur bjsv. Oks með ágætum. Hlýtur þetta að teljast nokkuð góð staða og bera þeim gott vitni sem þar hafa staðið í fylkingarbrjósti.

 

Eins og sagt var frá í upphafi, er hér ekki um neina tæmandi lýsingu á starfi bjsv. Oks að ræða heldur farið tiltölulega fljótt yfir sögu og reynt að hafa þetta ekki svo langt mál að enginn nenni að lesa.

Núverandi stjórn skipa:

Form. Snorri Jóhannesson Augastöðum 

Gjaldk. Jóhann P Jónsson Hæl

Ritari: Björn Björnsson  Ásbrún

Meðstjórnendur:

Bjarni Guðmundson  Skálpastöðum

Davíð Ólafsson  Hvítárvöllum

 

Góðar stundir

 

Þorvaldur Jónsson.