15. mars 2013

Aldrei komið á jökul áður. Fulltrúar Raymarine

Í gær hélt átta manna hópur upp á Langjökul til prófana á skiparadar og hitamyndavél við leit á jökli. Fjórir úr hópnum voru meðlimir Björgunarsveitarinnar Oks en til viðbótar voru tveir starfsmenn Sónar ehf auk tveggja fulltrúa framleiðanda tækjanna, Raymarine.

 

Í sem fæstum orðum komu tækin mjög vel út og unnu vel saman. Ljóst er að tæki sem þessi geta margfaldað afköst ökutækja við leit á jökli við ákveðnar aðstæður. Eru starfsmönnum Sónar ehf og Raymarine hér með færðar þakkir fyrir þeirra framlag við þessar prófanir.

26. janúar 2013

Dagana 25. til 26. janúar var haldið námskeiðið Snjóflóð 1. Verklegar æfingar voru haldnar í Þjófakrók upp við Langjökul. Námskeiðið sóttu félagar úr Ok, Brák og Heiðari. Veðrið lék ekki við okkur í verklega hlutanum og var varla stætt fyrir roki þegar mest gekk á.

Leiðbeinendunum Kristjáni Tryggvasyni og Kristjáni Tómassyni eru hér með færðar þakkir fyrir vel heppnað námskeið.

2. janúar 2013

Undanfarna fjóra daga hafa meðlimir í Björgunarsveitunum Ok og Brák aðstoðað viðgerðaflokka Landsnets bæði í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Einnig var snjóbíll frá Ok við samskonar störf upp af Sælingsdal í Dalasýslu.

Í Staðarsveit var ljótt um að lítast enda yfir 60 staurastæður brotnar. Starfið fólst meðal annars í að gera línuvegi færa enda lágu línur og brotnir staurar yfir þá á mörgum stöðum. Einnig var ísing barin af línum og þær grafnar upp þar sem fennt hafði yfir þær.